Meira en 100 þúsund sjálfstætt starfandi sérfræðingar hafa hætt starfsemi sinni í Grikklandi frá því um mitt ár 2016 vegna síhækkandi skattheimtu í landinu.

Tekjuskattur grískra fyrirtækja er um 29%, en skatturinn er 15% á fjármagnstekjur auk 24% virðisaukaskatts. Einstaklingar greiða síðan allt að 45% tekjuskatt auk 10% viðbótargreiðslu sem nefnt er samstöðugjald.

Í síðasta mánuði samþykktu stjórnvöld þessa síðustu skattahækkun, auk niðurskurðar á eftirlaunagreiðslum og einkavæðingar. Þetta hefur leitt til þess að aukinn fjöldi grískra fyrirtækja og einyrkja hafa flutt starfsemi sína til ýmissa austur evrópuríkja með lægri skattheimtu.

Mjög algengt er að viðskiptavinir greiði undir borðið sem og að fyrirtæki greiði formlega einungis lágmarkslaun en greiði svo ýmis konar aukagreiðslur til starfsmanna svart eða í formi inneignarnóta. „Ofsköttun er vítahringur sem lagar ekki vandann,“ hefur WSJ eftir hinum 40 ára gamla rafvirkja Antonis Alevizakis. „Einungis þriðjungur viðskiptavina vilja fá kvittun. Það er mikill hvati til að sleppa við 24% virðisaukaskattinn.“

Framleiðnir hætta eða flytja starfsemi úr landi

Þannig er um 15 þúsund grísk fyrirtæki skráð í Búlgaríu sem dæmi, en fjármálaráðuneytið í Grikklandi metur að um 80% þeirra hafi einungis skráningarnúmer í austur evrópulandinu en enga starfsemi, og séu þar einungis til að forðast gríska skattlagningu.

„Fyrirtæki og þeir sem eru sjálfstætt starfandi annað hvort loka fyrirtækjum sínum, eða reyna að hafa tekjurnar eins litlar og hægt er,“ segir skattasérfræðingurinn Chrysoula Galiatsatou sem segir að hluti framleiðnari borgara landsins sjái enga ástæðu til að leggja meira á sig því það skili sér ekki í auknum tekjum. Aðhaldsaðgerðir á fjárlögunum í Grikklandi síðusta áratuginn hafa skilað því að skattlagning í landinu er á pari við það sem mest gerist í Evrópu.

„Skattbyrðin letur efnahagslífið mjög mikið. Hún hefur mest áhrif á framleiðnari hluta grísks samfélags,“ segir George Pagoulatos, hagfræðiprófessor í Efnahags- og Viðskiptaháskóla Athenu. „Grikkland líkist Skandinavískum ríkjum í skattheimtu, en velferðarríkið er á engan hátt sambærilegt: Þú færð ekkert í staðinn.“

Há skattheimta í landinu kemur ofan á það að löng hefð er fyrir skattaundanskotum í landinu, sem sögð er rakin til þess þegar það þótti samfélagsleg skylda að halda aftur af skattgreiðslum til tyrkneska heimsveldisins. Þannig er talið að 26,5% af VLF teljist til svarta hagkerfis landsins, en meðaltalið í ESB ríkjunum er um 16,7%. Jafnframt nema skattaskuldir íbúa landsins til ríksins um 90% af því skatttekjunum sem skila sér.

Efnahagur dregist saman um fjórðung á áratug

Frá því að efnahagskrísan fór að hafa veruleg áhrif á fjárhag Grikklands árið 2009 hefur efnahagur landsins dregist saman um ríflega fjórðung. Í heildina hafa aðhaldsaðgerðir stjórnvalda numið um 72 milljörðum evra, eða sem nemur 8.800 milljörðum íslenskra króna

Á svipuðum tíma og efnahagurinn sýnir loks eilítil merki um að hann sé farinn að vaxa á ný horfa stjórnvöld fram á að komast út úr björgunaraðgerðunum svokölluðu þann 21. ágúst næstkomandi. Á þeim átta árum sem björgunaraðgerðirnar hafa verið í gangi munaði tvisvar mjög litlu að Grikkland hefði losnað út úr fjárhagslegri spennitreyju evrunnar, eða eins og WSJ orðar það, verið sparkað út.

Stjórnin samanstendur af flokkum gegn aðhaldi og samningum við lánardrottna

Undir lok síðasta mánuðar náðu stjórnvöld í Grikklandi, sem leidd eru af tveimur flokkum sem lýstu sig andsnúna samningum við lánardrottna landsins í síðustu kosningum, samkomulagi við lánardrottnana á fundi ríkja evrulandanna.

Felur samkomulagið meðal annars í sér að þó ríkið geti nú farið að sækja fjármagn á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum á ný, sé það skuldbundið til að hafa afgang að fjárlögum næstu 40 árin. Lánardrottnar landsins hafa neytt ríkið til að skera fjárlagahallann niður úr um 15% af vergri landsframleiðslu árið 2009 í 1% afgang á síðasta ári.

Ólíklegt er að fjárhagurinn eða stjórnmálaástandið leyfi skattalækkanir þó í bráð, bæði vegna þrýstings á aukin útgjöld frá almenningi og ýmsum þrýstihópum, en einnig vegna þess að lánardrottnar landsins fóru gagngert fram á það að skattar yrðu hækkaðir og þeim haldið háum.