Grikkir gert allt til að taka á sig þær byrðar sem Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og kröfuhafar landsins hafa lagt á þjóðina og verður ekki meira á hana lagt, að sögn Christos Papoutsis, ráðherra borgaralegra öryggismála í ríkisstjórn Lucasar Papademos, forsætisráðherra Grikklands.

Ummæli Papoutsis féllu í kjölfar þess að fjármálaráðherrar evruríkjanna frestuðu fundi með grísku ríkisstjórninni um frekari niðurskurð á grískum ríkisútgjöldum. Krafan er að gríska ríkið skeri niður útgjöld um 325 milljónir evra, um jafnvirði rúmra 52 milljarða íslenskra króna. Fyrr fái ríkisstjórnin ekki björgunarlánapakka upp á 130 milljarða evra sem á að gera henni kleift að standa við skuldbindingar næsta mánuðinn.

Gríska ríkisstjórnin náði saman um nauðsynlegasta niðurskurðinn um síðustu helgi og hefur allt logað í mótmælum í höfuðborginni Aþenu síðan þá.

Breska fréttastofan BBC bendir á að Grikkir séu í slæmri stöðu. Hagkerfið þar í landi dróst saman um 7% á síðasta fjórðungi nýliðins árs.