Erlent 20. júní 2012 13:58 Ritstjórn / [email protected]

Grikkir við það að mynda ríkisstjórn

Líklegt þykir að formaður hægri manna á Grikklandi setjist í stól forsætisráðherra.

Stjórnarmyndunarviðræður á Grikklandi ganga vel, að sögn Evangelos Venizelos, leiðtoga Sósíalista á Grikklandi. Hann býst við að ný ríkisstjórn verði kynnt til sögunnar í kvöld. Líklegt þykir að Antonis Samaras, leiðtogi hægriflokksins Nýja lýðræðisflokksins, setjist í stól forsætisráðherra.

Venizelos var fjármálaráðherra Grikklands þegar þáverandi stjórn skrifaði upp á alþjóðlega lántöku sem skikkaði Grikki til að taka á sig harkalegan niðurskurð í ríkisfjármálum. Ráðamenn evruríkjanna hafa lagt á það mikla áherslu að við stjórnartaumum á Grikklandi taki ríkisstjórn sem styðji áframhaldandi þátttöku landsins í myntbandalagi Evrópu og frekari niðurskurð. Skuldavandi Grikkja og annarra evruríkja var í brennidepli á fundi þjóðarleiðtoga 20 helstu iðnríkja heimsins í Mexíkó í vikunni.

Í netútgáfu bandaríska stórblaðsins New York Times segir, að líklegt þyki að George Zannias hverfi úr stóli fjármálaráðherra og við honum taki Vassilis Rapanos, seðlabankastjóri Grikklands.

Aðrar fréttir
Fólk
Skoðun
Eftir vinnu