George Papaconstantnou, fjármálaráðherra Grikklands, vill að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veiti Grikklandi lengri lánstíma á 100 milljarða evra neyðarláni sem ríkið fékk vegna fjárhagserfiðleika. Þá vill ráðherrann að vextir lækki.

Hann sagði skoðun sína í viðtali við franskt dagblað í dag og Reuters greinir frá. Sendinefnd ESB og AGS fer yfir stöðu mála í Grikklandi á morgun. Í mars síðastliðnum lækkuðu ESB vexti á láninu og breyttu einnig endurgreiðsluáætlun til þess að létta á fjárhag ríkisins.

Papaconstantinou telur rétt að að lengja í láninu og að vexti verði lækkaði. Þannig verði tryggt að Grikkland geti endurgreitt lánið. Ár er liðið síðan Grikklandi var veitt neyðarlán. Kreppa ríkir nú í landinu og hafa stjórnvöld þurft að draga úr opinberum gjöldum og hækka skatta.

Á síðustu vikum hafa líkur á að skuldir Grikklands verði endurskipulagðar aukist. Í viðtalinu blæs ráðherrann þó á allar sögusagnir um slíkt. Hann segir að margir hafi veðjað á að ríkið verði gjaldþrota. Það skýri vangaveltur um að skuldir verði endurskipulagðar.