Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sparaði ekki stóru orðin í viðtali sem sjónvarpsstöðin France-2 sýndi í gær. Hann sagði það hafa verið mistök að leyfa Grikkjum að gerast aðilar að myntbandalagi Evrópusambandsins og taka upp evruna sem gjaldmiðil fyrir áratug. Forsetinn hefur ásamt öðrum þjóðarleiðtogum staðið í ströngu síðustu daga við að koma í veg fyrir þjóðargjaldþrot í Grikklandi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir Evrópu og hugsanlega heimshagkerfið, eins og það hefur verið orðað.

Sarkozy lagði á það áherslu í viðtalinu að þótt Grikkir hafi rambað á barmi gjaldþrots sökum mikillar skuldabyrði þá sé ekki í myndinni að sparka landinu út af evrusvæðinu. Þvert á móti biðlaði hann til Grikkja að þeir styðji þær niðurskurðaraðgerðir sem boðaðar hafi verið og eigi að gera landinu kleift að vera áfram innan myntbandalagsins.

Þá dró forsetinn upp dökka mynd af stöðunni áður en lending náðist á fundi leiðtoga ESB-ríkjanna á miðvikudag: „Ef evran hefði sprungið á miðvikudag þá hefði Evrópa gert það líka. Greiðslufall Grikkja hefði líka haft áhrif á alla. Við tókum mikilvægar ákvarðanir til að koma í veg fyrir þessar hörmungar,“ sagði hann.

Lausn málsins á miðvikudag leiddi til mikillar hækkunar á hlutabréfamörkuðum um heim allan í gær.