Grískir embættismenn hafa brugðist ókvæða við tillögum Þjóðverja sem gera ráð fyrir yfirráðum Evrópusambandsins yfir sköttum og ríkisfjárlögum.

Grísk stjórnvöld segja að þau verði að stjórna sjálf eigin fjármálum.

Evrópusambandið segir að auka þurfi eftirlitið til muna með fjármálum Grikkja en þeir hafi áfram fullt sjálfstæði. Á sama tíma er verið að vinna að öðrum skuldapakka Grikkja samkvæmt frétt BBC um málið og að samkomulag væri í augsýn.

Fjármál Grikkja eru nú þegar í höndunum á erlendum aðilum þar sem bæði Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa krafist vissrar aðhaldssemi í ríkisfjármálum landsins sem Grikkjar hafa fallist á.