Um 31% einstaklinga á vinnumarkaði í Grikklandi er annaðhvort atvinnulaus eða ekki í fullri vinnu, samkvæmt nýjustu tölum grísku hagstofunnar. Sambærilegt hlutfall í Þýskalandi er 9% og í langflestum Evruríkjum er hlutfallið undir 20%. Atvinnuleysi í Grikklandi mælist nú 23%, en til samanburðar var atvinnuleysi í landinu um 7,8% árið 2008. Það ár var meðalatvinnuleysi í ríkjum evrusvæðisins um 7,4%. Árið 2013 náði atvinnuleysi í Grikklandi hámarki í 27%, sem var meira en tvisvar sinnum meira en meðaltal evruríkjanna á þeim tíma.

Halli á rekstri ríkisins var um 15% árið 2009, en í fyrra var smávægilegur afgangur á ríkissjóðnum. Þetta er ein mesta breyting sem orðið hefur á ekki lengri tíma í sögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En vegna þess hve mjög hagkerfi Grikklands hefur dregist saman á þessu tímabili hefur hlutfall skulda ríkisins af vergri landsframleiðslu haldið áfram að hækka hratt. Í árslok 2015 var hlutfallið um 179% og hefur ekki minnkað síðan þá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .