Verulega fór að draga úr fasteignaverðshækkunum í Grikklandi á þriðja ársfjórðungi 2007. Samkvæmt tölum Global Property Guide (GPG) er greinileg kólnun á fasteignamarkaðnum þar í landi þótt enn votti fyrir hækkunum. Á þriðja ársfjórðungi 2007 nam meðaltalshækkunin milli ára um 2,31%. Er það verulegt bakslag eftir gríðarlegar hækkanir undanfarin ár.

Frá 1995 til 2006 hækkaði fasteignaverð í Grikklandi um heil 214%. Meginskýring þeirrar hækkunar var mikil eftirspurn sólþyrstra Norður-Evrópubúa eftir fasteignum í landinu. Yfir 16 milljónir frðamanna sækja Grikki heim á hverju ári. Ferðamannaþjónustan stendur undir 15% af þjóðarframleiðslu Grikkja og nýtir um 16,5% af þeim sem atvinnu hafa.

Árlegur hagvöxtur á árunum 1995 til 2006 var 3,78% sem er með því hæsta sem þekkist innan ríkja Evrópusambandsins. Búist er við að það dragi úr hagvextinum á þessu ári, en að hann muni síðan stíga í 4% á árinu 2009. Verðbólgan árið 2007 var um 3,8% og er enn ofan við 2% viðmiðunarmörk seðlabanka Grikklands. Vextir af fasteignaveðlánum sem eru óverðtryggð voru um 4% til 4,56%, en um 4,7% til 5,56% af öðrum lánum. Raunvextir undanfarin misseri hafa því verið 7,8% til 9,36% sem er samt langt undir því sem þekkist hérlendis.

Þrátt fyrir miklar hækkanir er fasteignaverð í Grikklandi enn tiltölulega lágt miðað við önnur eftirsóknarverð lönd í Suður-Evrópu. Í þeirri staðreynd kunna einmitt að felast tækifæri fyrir fjárfesta. Verðhækkanir undanfarin ár endurspeglast bæði í mikilli eftirspurn og litlu framboði fasteigna á markaði. Þar er ein helsta ástæðan sú að framleiðsla á nýjum húsum vegna erlendra fjárfestinga hefur verið hæg vegna mikils fjárfestingarkostnaðar í landinu. Þá er allt regluverk í Grikklandi fremur flókið að mati GPG og ekki beint til þess fallið að hvetja til erlendra fjárfestinga í fasteignum. Fasteignir við ströndina hafa hækkað tiltölulega hraðar og er að jafnaði hærra en í borgum eins og í Aþenu og er munurinn að meðaltali um 8%. Sem sagt landsbyggðin hefur þar vinninginn, öfugt við það sem við þekkjum hérlendis.

Grikkland gekk í Evrópusambandið árið 1981 og í efnahagsog myntbandalagið árið 2001. Grikkjum hefur þó ekki tekist eitt einasta ár að halda verðbólgunni innan 2% viðmiðunarmarka ESB. Atvinnuleysi hefur verið mikið og vonast stjórnvöld til að byggingariðnaður geti orðið til þess að draga úr atvinnuleysinu, auka tekjur og gefa efnahagslífinu nauðsynlegt spark. Hvort það fer alveg saman við verbólgumarkmið skal ósagt látið. Kannski reyna þeir bara að fá lánaða verðbólguhandbremsuna hjá Seðlabanka Íslands. Jafnvel þótt hún virðist bara virka á þá sem sitja í framsætinu og eyða öllum sínum tíma og kröftum í að halda um bremsuhandfangið. Mörgum sýnist að bremsan góða hafi hins vegar engan veginn dugað til að draga úr hraða verðbólgubílsins því trúlega eru bremsuborðarnir uppétnir fyrir löngu.