Gríska ríkið neyddist til að leita í varasjóði sína til þess að greiða 750 milljóna evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í gær. BBC News greinir frá þessu.

Þrátt fyrir að eiga í stórkostlegum erfiðleikum með að greiða skuldir sínar tókst gríska ríkinu þó að inna þessa afborgun af hendi degi fyrir eindaga.

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, varaði við því í gær að ríkið verði uppiskroppa með peninga innan fárra vikna.

Í heildina skulda Grikki 323 milljarða evra. Þar af tilheyra 142 milljarðar evra, eða 60% heildarskuldanna, evrusvæðinu og um 32 milljarðar, eða 10% heildarskuldanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.