Fátt virðist ætla að geta komið í veg fyrir greiðslufall hjá ríkissjóði Grikklands eftir nokkra tíma, eða á miðnætti í Aþenu. Ósk forsætisráðherrans, Alexis Tsipras, um framlengingu á gildandi björgunaráætlun á meðan samið verði um lausn til lengri tíma hefur verið tekið fálega í Brussel. Peter Spiegel , fréttastjóri Financial Times í Brussel, segir að hann verði var við mjög neikvæð viðbrögð við ósk Tsipras meðal áhrifamanna þar í borg.

Reuters segir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hafa skotið loku fyrir frekari viðræður við grísk stjórnvöld þar til niðurstaða væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu liggur fyrir. Atkvæðagreiðslan, sem kanna á afstöðu grísks almennings til síðustu sáttatillögu lánadrottna Grikklands, á að fara fram þann 5. júlí næstkomandi, og er því harla vonlítið að lausn fáist í málið fyrir miðnætti.

Í dag rennur út frestur gríska ríkisins til að greiða 1,5 milljarða evra afborgun af láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Takist það ekki verður ríkissjóður Grikklands kominn í vanskil og getur það haft víðtækar og alvarlegar afleiðingar fyrir grískt efnahags- og fjármálakerfi. Er ekki útilokað að Grikkland hrökklist úr evrusamstarfinu og neyðist til að taka upp gjaldeyrishöft. Hámark hefur verið sett á úttektir reiðufjár úr grískum bönkum frá því í gær.

Viðbót:

Peter Spiegel hjá Financial Times segir frá því á Twitter að ekki verði af framlengingu neyðaraðstoðar Evrópusambandsins við Grikkland, sem rennur út í dag. Fjármálaráðherra Finnlands, Alexander Stubb , hefur einnig sagt hið sama á Twitter. Að óbreyttu verður því af greiðslufalli gríska ríkisins í kvöld.