Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, hefur alla helgina fundað með helstu pólitískum leiðtogum Grikklands. Ef marka má fréttir í morgunsárið hafa menn náð samkomulagi um sparnaðartillögur upp á 1,5% af vergri landsframleiðslu. Í því mun einnig vera að finna rammaáætlun um endurfjármögnun banka og áætlun um hvernig efla megi samkeppnisfærni grísks atvinnulífs með lækkun launa og annars kostnaðar.

Hins vegar fer því fjarri að flokkarnir í Grikklandi hafi náð samkomulagi í öllum átakaatriðum og er enn tekist á um launalækkun innan einkageirans að sögn Financial Times. Grísk stjórnvöld munu funda með tríóinu mikilvæga, þ.e. framkvæmdastjórn ESB, AGS og Evrópska seðlabankanum kl. 11 í dag að evrópskum tíma og þá verða að liggja fyrir fyrstu niðusrtöður um það hvernig Grikkir hyggjast mæta kröfum þessara aðila - svo forða megi landinu frá gjaldþroti.