Auðvelt er að verða sér úti um sígarettur á hinum svarta götumarkaði í Grikklandi. Pakkinn kostar meira en helmingi minna á götunni en í skattskyldri tóbaksverslun, eða rétt um eina og hálfa evru - 213 íslenskar krónur á 20 sígarettur. Bloomberg segir frá þessu.

Þessi götusala verður til þess að gríska ríkið missir af fúlgum skattfjár. Skattur lagður á sígarettur nemur um 85% þar í landi, en ríkið missir þá af rúmlega 670 milljónum evra vegna ólöglegu sölunnar - 93,8 milljörðum íslenskra króna.

Um það bil fjórir milljarðar sígarettna eru seldir ólöglega í Grikklandi árlega, en skatturinn sem hefði verið innheimtur af slíku magni hefði verið meira en nóg til þess að auka tryggingargjald launafólks, sem mótmælt var harðlega nú á dögunum.

Óvíst er hvaða áhrif þessi ólöglega sala hefur á tóbaksneyslu Grikkja í heild sinni. Löggjöf um skattlagningu tóbaks hefur oft á tíðum miðað að því að takmarka neyslu þess með verðhækkunum. Ef til vill stuðlar götusalan að aukinni neyslu sem gæti haft neikvæð nettó lýðheilsufræðileg áhrif.