Nýuppfærðar atvinnuleysistölur sem hið opinbera í Grikklandi hefur gefið út sýnir að landið hefur velt Spáni úr sessi sem landið með mesta atvinnuleysið meðal ríkja innan Evrópusambandsins. Fjórði hver maður í Grikklandi er án atvinnu.

Þessar nýjustu tölur eru frá októbermánuði en þá var atvinnuleysið 26,8%. Spánn á því ekki langt í land en atvinnuleysistölur þar í landi birtust fyrir nóvember nýlega og þá var atvinnuleysið 26,6%.

Gríska hagkerfið er enn í djúpri kreppu og er ríkisstjórnin önnum kafin í aðhaldsaðgerðum til þess að uppfylla skilyrði fyrir lánum frá Seðlabanka Evrópu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Lánin frá þessum 3 aðilum hljóða upp á um 240 milljarða evra.

Þess ber að geta að miðað við tölur frá OECD þá hefur Grikkland alltaf skilað halla á fjárlögum sínum frá því í það minnsta árið 1994.

Það er því ekki ólíklegt að atvinnuleysið fari í 30% þar sem enn er nóg eftir af sparnaði hjá hinu opinbera í Grikklandi.