Grísk stjórnvöld hafa nú beðið íbúa landsins sem eiga fjármuni í ólöglegum erlendum skattaskjólum að telja fram fé sitt í Grikklandi gegn því að refsiaðgerðir gegn þeim verði að mestu felldar niður.

Þetta er hluti af aðgerðum stjórnvalda til þess að bæta efnahagsástand landsins og auka skatttekjur. Ríkið vinnur því nú að lögum sem veita einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa haft eignir sínar í ólöglegum skattaskjólum erlendis tækifæri til þess koma með fjármunina til landsins án þess að þurfa að greiða sektir eða auka gjöld líkt og núverandi lög landsins kveða á um. Lögin munu jafnvel fela í sér að fallið verði frá kærum sem nokkrir þessara aðila gætu átt yfir höfði sér.

Í viðtali við aðstoðar fjármálaráðherra landsins kom fram að þrátt fyrir að lögin falli ekki að fullu frá refsiaðgerðum á hendur þeim sem hafa nýtt sér slík skattaskjól þá vonist ríkisstjórnin til þess að aðgerðirnar muni duga til þess að þessir að einstaklingar og félög muni snúa til baka með fjármuni sína.