Segja má að óvissan hafi sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt nú í skuldakreppu evruríkjanna og ber þá Grikkland að sjálfsögðu hæst en sérfræðingar virðast á einu máli um að gjaldþroti verði ekki forðað. Flestir horfa markaðsaðilar þó til stjórnmálamannana sem eiga að koma með lausnirnar. Það hefur þó brugðist og því má segja að taugatitringur markaðarins magnist með hverjum deginum sem skilar sér í miklum sveiflum á gengi hlutabréfa; það þarf lítið til að gengi hlutabréfa hækki eða lækki við þessar aðstæður.

Það sem af er degi hefur þessi þróun verið einstaklega áberandi á mörkuðum. Hæstu herrar Evrópusambandsins funduðu í Póllandi um helgina og var vonast til þess að sá fundur myndi skila sér í afgerandi aðgerðum til lausnar Grikklandsvandans. Þær vonir brugðust þó og fyrir vikið hefur hlutabréfamarkaðurinn gefið verulega eftir, bæði í Asíu og hér í Evrópu.

Þá hafa helstu gjaldmiðlar Evrópu, evran og pundið, gefið all hressilega eftir gagnvart dollar í morgun, evran lækkað um tæplega 1% og pundið um tæplega hálft prósent.