Veitingastaðurinn Grillmarkaðurinn hagnaðist um 81 milljón króna á síðasta rekstrarári, samanborið við 111 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu 876,7 milljónum króna samanborið við 865,2 milljónir króna árið á undan. Rekstrarhagnaður nam 112,7 milljónum í fyrra samanborið við 142,5 milljónir árið áður.

Eignir veitingastaðarins námu 386,5 milljónum króna um síðustu áramót, eigið fé félagsins var 282,5 milljónir króna og eiginfjárhlutfall var 73%. Launagreiðslur til starfsmanna námu 304,9 milljónum króna, en að meðaltali voru 39 stöðugildi hjá félaginu á síðasta ári. Greiddar voru 40 milljónir króna í arð til hlutahafa á árinu 2017, en árið áður höfðu arðgreiðslur til hluthafa verið 30 milljónir króna. Guðlaugur Pakpum Frímannsson er framkvæmdastjóri Grillmarkaðarins en hann á jafnframt 30% hlut í veitingastaðnum.