*

fimmtudagur, 19. september 2019
Innlent 18. febrúar 2019 15:37

„Grimmd, taumlausri græðgi og mannvonska“

VR hefur sent frá sér opið bréf til stjórnenda Kviku, þar sem meint hækkun á leigu Almenna leigufélagsins er harðlega gagnrýnd.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Haraldur Guðjónsson

VR hefur sent frá sér opið bréf til stjórnenda Kviku banka, þar sem meint hækkun á leigu Almenna leigufélagsins er harðlega gagnrýnd. Almenna leigufélagið er í eigu sjóða fjármálafyrirtækisins GAMMA, en síðasta sumar var greint frá því að Kvika banki hafi fest kaup á GAMMA. Þess ber þó að geta að kaupin bíða enn samþykkis Samkeppniseftirlitsins.   

VR segir í bréfinu að borist hafi gögn til félagsins með samskiptum Almenna leigufélagsins við nokkra leigjendur sína þar sem „enn á ný sé án fyrirvara, eða nokkurra haldbærra raka, krafist tugþúsunda hækkunar leigu og leigjendum settir þeir afarkostir að samþykkja hækkunina ellegar vera hent á götuna án húsaskjóls.“ Umhugsunarfrestur sem leigjendum sé gefinn til að samþykkja eða hafna tilboðinu sé einungis fjórir dagar. Varla sé hægt að lýsa þessu með öðrum orðum en sem „grimmd, taumlausri græðgi og mannvonska.“

Stjórn VR segist ekki sætta sig við þetta. „Þeir kjósi að láta ekki bendla sig við aðila sem beiti slíkum meðulum og hafi tekið þá ákvörðun að veita Kviku banka fjögurra daga frest til þess að láta Almenna leigufélagið hætta þessum grimmdarverkum og koma því þannig fyrir að leiga félagsins hækki ekki umfram verðlag og að leigjendum verði tryggt húsnæðisöryggi. Hafi það ekki verið gert innan fjögra daga muni VR taka allt sitt fé úr eignastýringu hjá Kviku banka sem er um 4,2 milljarðar króna.

Sjá má bréf VR til stjórnenda Kviku banka í heild sinn hér að neðan:

Í ljósi þess að fjármálafyrirtækið Gamma er í eigu Kviku banka, og stýrir Almenna leigufélaginu, beinum við orðum okkar til stjórnenda Kviku banka.

VR hafa borist gögn með samskiptum Almenna leigufélagsins við nokkra leigjendur sína þar sem enn á ný er án fyrirvara, eða nokkurra haldbærra raka, krafist tugþúsunda hækkunar leigu og leigjendum settir þeir afarkostir að samþykkja hækkunina ellegar vera hent á götuna án húsaskjóls. Umhugsunarfrestur sem leigjendum er gefinn til að samþykkja eða hafna tilboðinu er einungis fjórir dagar. Ljóst er að tugþúsunda hækkun á leigu gerir væntar hækkanir sem VR er nú að semja um við Samtök atvinnulífsins að engu.

Það er varla hægt að lýsa þessu með öðrum orðum en sem grimmd, taumlausri græðgi og mannvonsku.

Stjórn VR sættir sig ekki við þetta. Við kjósum að láta ekki bendla okkur við aðila sem beita slíkum meðulum og höfum tekið þá ákvörðun að veita Kviku banka fjögurra daga frest til þess að láta Almenna leigufélagið hætta þessum grimmdarverkum og koma því þannig fyrir að leiga félagsins hækki ekki umfram verðlag og að leigjendum verði tryggt húsnæðisöryggi. Hafi það ekki verið gert innan fjögra daga mun VR taka allt sitt fé úr eignastýringu hjá Kviku banka sem er um 4,2 milljarðar króna.

Hér fyrir neðan er dæmi um póst frá Almenna leigufélaginu til leigjanda sem sendur var fjórum dögum fyrir 5. febrúar.

„Góðan dag,
Nú líður að lokum leigusamnings þíns um íbúðarhúsnæði við xxxxxx nr. xx, 108 - Reykjavík og langar okkur því að bjóða þér að endurnýja hann. Samningurinn rennur út þann 31.03.2019. Við getum boðið þér tveggja ára leigusamning á kr. xxx.xxx,- á mánuði. Vinsamlegast staðfestu endurnýjun fyrir þriðjudaginn 5. febrúar með því að svara þessum pósti. Við biðjum þig jafnframt um að láta okkur vita viljir þú ekki endurnýja samninginn.

Endilega vertu í sambandi við okkur sem fyrst með hvað þú hyggst gera."