„Við ætlum að fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni og ætlum að leggja fram ákveðna sviðsmynd fyrir alla þá sem málið varðar. Við stefnum að því að ná fram niðurstöðu um þetta í mánuðinum,“ segir Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings. Hann mun síðar í mánuðinum funda ásamt fulltrúum atvinnuþróunarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu og fleirum um þær leiðir sem vonast er til að opni dyr fyrir kínverska fjárfestirinn Huang Nubo og umsvifamikla uppbyggingu hans á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar hefur hann m.a. haft áform um að reisa lúxushótel og golfvöll. Þá voru áform uppi um að hann reisti lúxushótel við hlið Hörpunnar.

Nubo sótti um heimild til að kaupa jörðina í gegnum hlutafélag í fyrra. Innanríkisráðuneytið synjaði umsókn hans á grundvelli laga um eignarrétt og afnotarétt borgara ríkja sem standa utan við EES-svæðið.

Eftir synjun ráðuneytisisins hafa viðræður átt sér stað á milli sveitarstjórnar Norðurþings og Nubos, m.a. um það að sveitarfélagið kaupi 75% hlut jarðarinnar með láni frá Nubo og leigi honum hana. Ríkið á þann hlut af Grímsstöðum á Fjöllum sem út af stendur. Samningur um kaup á þessum hluta jarðarðinnar hljóðar upp á um 800 milljónir króna. Ef af verður mun fjárfesting Huang Nubo hér nema nokkrum milljörðum króna. Eftir að ráðuneytið synjaði beiðni Nubos sagðist hann hættur við öll fjárfestingaráform sín hér og beindi orðið sjónum sínum til hinna Norðurlandanna.

Bergur var fyrir stuttu í Kína þar sem hann fundaði m.a. með Nubo um Grímsstaði á Fjöllum. Hann vildi lítið gefa uppi um málið að svo stöddu í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við þurfum að fá svigrúm til að fá að vinna þetta vel og faglega. VIð munum sannarlega gera það, ef menn þurfa á einhverju að halda þá er það fjárfesting í náttúru- og menningartengd ferðaþjónusta,“ segir hann.