Grímur Atlason, sveitarstjóri í Dalabyggð, býður sig fram í 1.-2. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi vegna komandi alþingiskosninga.

Í tilkynnningu vegna framboðsins er eftirfarandi haft eftir Grími:

„Ég legg áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni og umhverfismál og mun beita mér af afli gegn hugmyndum um olíuhreinsistöð og aðra mengandi stóriðju.  Ég vil að kvótakerfið verði endurskoðað og að kerfi sem byggir upp samfélagið á landsbyggðinni komi í stað fyrir núverandi kerfi  sem er bæði ósjálfbært og hefur sogið kraftinn úr landsbyggðinni mörg undanfarin ár. Tími þess er liðinn.

Ég legg áherslu á þau miklu gæði og hlunnindi sem eru fólgin í lífinu á landsbyggðinni. Ég mun áfram beita mér fyrir aukinni fjárfestingu í grunnþjónustu á landsbyggðinni og eflingu félagsþjónustu og landbúnaðar. Það var ekki landsbyggðin sem efndi til ofþenslunnar og það þarf að standa vörð um að landsbyggðin verði ekki látin bera of þungar byrðar á þeim samdráttartímum sem framundan eru.“