Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri í Grindavík, segir að atvinnulífið í bænum sífellt að verða fjölbreyttara og atvinnuleysi lítið. Auk mjög öflugra sjávarútvegsfyrirtækja hafi atvinnulífið styrkst m.a. við flutning glerverksmiðju Glerborgar til bæjarins fyrir skömmu. Þá sé unnið að því að skapa grunn fyrir tvö ný stóriðjufyrirtæki auk líftæknismiðju ORF sem miklar vonir eru bundnar við.   Þar er um að ræða íslensk-bandaríska fyrirtækið Carbon Recycling International, ehf. (CRI) sem hyggst nýta afgas frá jarðhitavirkjun í Svartsengi til framleiðslu á metanóli sem hægt er að blanda í bensín og dísilolíu. Þá hefur fjárfestingarfélagið Strokkur Energy verið að skoða möguleika á að reisa verksmiðju í Grindavík til að framleiða 7.200 tonn af svokölluðum sólarkísil.   Eitt athyglisverðasta verkefnið er þó á vegum nýsköpunarfyrirtækisins ORF Líftækni í Grænni smiðju í Grindavík og framleiðsla á próteini í plöntum.   "Það eru mjög spennandi hlutir að gerast þar og við höfum átt mjög góð samskipti við forsvarsmenn ORF," segir Jóna Kristín. - Hvað með orkuöflun fyrir þessi verkefni? "Við höfum verið í viðræðum við HS Orku en þar eru menn sér mjög meðvitandi um orkuþörf fyrirtækja sem leitað hafa til okkar varðandi orkufrekan iðnað. Mér skilst að þetta eigi samt ekki að trufla orkuöflun vegna álvers í Helguvík." Átök um land HS Orku Jarðhitaréttindi og land undir frekari orkuöflun er innan lögsögu Grindavíkur en í eigu HS Orku. Í síðustu viku greindi Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, frá samningsdrögum um sölu Reykjanesbæjar á hlut sínum í HS-Orku. Þau fela jafnframt í sér kaup Reykjanesbæjar á landi fyrirtækisins í Svartsengi. Jóna Kristín gagnrýnir þetta harðlega enda hafi stjórn HS Orku lýst því nýlega yfir að eðlilegast væri að landið væri í eigu Grindavíkurbæjar.   Stjórn HS Orku hf. samþykkti þó á fundi 30. júní samninga við Reykjanesbæ um sölu á landareignum og jarðhitaauðlindum í Svartsengi og á Reykjanesi ásamt samningum og leigu auðlindanna. Þá greindi RUV frá því í gær að kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy hygðist kaupa 10,8% hlut Geysir Green Eneergy í HS Orku. Fyrirtækið hefði einnig hug á að kaupa hluti Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar í HS Orku. Ef þetta gengur eftir yrði hlutur Magma í HS Orku samtals 43%.