Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að bærinn hafi áhuga á að kaupa aftur hlut í HS Orku en bærinn seldi rúmlega átta prósenta hlut í Hitaveitu Suðurnesja árið 2007 til Orkuveitu Reykjavíkur á genginu 7,0.

Fyrir hlutinn fékk bærinn rúma fjóra millijarða króna.

„Nú erum við að skoða hvernig við getum komið að nýju og breyttu eignarhaldi," segir hún. „Við erum í breyttu umhverfi. Það þarf ekki allt að vera falt -  allra síst nýting auðlinda landsins."

Jóna Kristín segir að þegar Grindavík hafi selt hlutinn á sínum tíma hafi sveitarfélögunum í raun verið stillt upp við vegg af ríkinu sem ákvað að selja sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja.

„Grindavíkurbær og aðrir minni hluthafar áttu á hættu að læsast inni, áhrifalausir með algjöran minnihluta, þegar ljóst varð að um meirihlutasamstarf var að ræða hjá Reykjanesbæ og GGE sem lykileigenda," segir hún.

Nánar er fjallað um málefni HS Orku í Viðskiptablaðinu í dag.