Seinni umferð forsetakosningar stendur nú yfir í Ukraínu, en nýjustu kannanir spá grínistanum Volodymyr Zelensky stórsigri.

Umfjöllun Financial Times segir vinsældir Zelensky einna helst mega rekja til vonbrigða með árangur ráðandi afla, og almennrar andúðar gegn þeim, en hann hefur sakað Petro Poroshenko, sitjandi forseta, um spillingu og aðgerðarleysi varðandi staðnandi lífskjör og áframhaldandi átök í austurhluta landsins.

Kosningabaráttan er sögð hafa verið heldur málefnasnauð, en ásakanir um spillingu hafa gengið á báða bóga. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum nýtur Zelensky stuðnings 58% þeirra sem hyggjast mæta á kjörstað, en Poroshenko aðeins 22%.

Zelensky hlaut 30% greiddra atkvæða í fyrri umferð kosninganna þann 31. mars síðastliðinn, en Poroshenko aðeins um 15%. Kjörstöðum lokar klukkan 8 í kvöld að staðartíma, en nokkra daga gæti tekið að ljúka talningu og fá endanlega niðurstöðu.