Halli verður á ríkissjóði verði ekki gripið til sérstakra aðgerða til viðbótar við 1,5% almenna aðhaldskröfu sem ríkisstjórnin hefur boðað við undirbúning fjárlagagerðar, að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hafa tekið við halla en ekki í jöfnuði í ríkisrekstrinum.

Bjarni rifjaði m.a. upp að krafa verði áfram að gætt verði aðhalds og aukins hagræðis í ríkisrekstri.

„Aðhaldið verður ekki flatt heldur á forræði einstakra ráðherra,“ sagði Bjarni og benti á að til viðbótar við aðhaldskröfuna verði að grípa til annarra aðgerða til að vinna á hallanum.