Evrópskir bankar eru með stórar stöður í grískum skuldabréfum sem þeir geta hvorki selt né varið.  Er talið að eignin nemi um 100 milljörðum evra, umtalsvert hærri en neyðarpakki AGS og ESB til Grikklands síðastliðið haust.  Reuters segir frá þessu á vef sínum.

Margir bankar hafa undanfarið reynt að minnka áhættu sína með sölu bréfanna eða með kaupum á vörnum (e. hedge) en hvort tveggja er nánast vonlaust.  Engir kaupendur eru til að kaupa bréfin, sem eru verðlögð með 50% afslætti í takt við hækkandi álag á bréfin sem eru nú um 14% á 10 ára skuldabréf, og varnir eru of dýrar.

Talið er að skuldabréf fyrir um 50 milljarðar evra séu í eigu grískra banka, um 19 milljarðar í eigu þýskra banka, 15 í eigu franskra banka og afgangurinn dreifist um önnur lönd Evrópu.

Matfyrirtækið Fitch Ratings sagði í dag að allar hugmyndir um lækkun skulda Grikklands á kostnað skuldabréfaeigenda gætu valdið bönkum erfiðleikum.