Útlit er fyrir að matsfyrirtækið Standard & Poor‘s muni hækka lánshæfiseinkunn gríska ríkisins úr ruslflokk í fjárfestingarflokk.

Talið er að landið gæti fengið einkunnina BBB-, þá lægstu í fjárfestingarflokki, og er gert ráð fyrir að hækkunin verði framkvæmd eftir þingkosningar 21. maí.

Skuldabréf gríska ríkisins hafa verið í ruslflokki frá árinu 2010. Það hefur haft í för með sér hærri fjármagnskostnað og var Seðlabanka Evrópu auk þess bannað um tíma að kaupa grísk skuldabréf. Þá var gríska ríkið á barmi gjaldþrots í byrjun árs 2012 og var lengi vel kallað eftir úrsögn Grikklands úr ESB vegna gegndarlausrar skuldasöfnunar.

Nú horfir hins vegar til bjartari tíma, en S&P hefur nýlega breytt horfum landsins úr stöðugum í jákvæðar. Ferðaþjónustan, stærsta útflutningsstoð landsins, hefur farið kröftuglega af stað eftir faraldur og mældist hagvöxtur í Grikklandi 8,4% árið 2021 og 5,9% í fyrra. Þá hefur skuldahlutfallið ekki mælst lægra í rúman áratug.