*

sunnudagur, 5. desember 2021
Erlent 22. júní 2018 15:31

„Gríska krísan endar hér“

Ríki evrusvæðisins hafa samið við Grikkland um að létta á skuldabyrði ríkisins.

Ritstjórn
Pierre Moscovici, framkvæmdastjóri efnahags- og fjármála hjá Evrópusambandinu.
epa

Ríki evrusvæðisins hafa skrifað undir það sem þau kalla sögulegan samning við Grikkland um að létta skuldabyrði ríkisins og fresta afborgunum. Samningurinn er stór liður í því að greiða Grikklandi leið út úr fjárhagsaðstoð Evrópuríkja og inn á alþjóðlega fjármálamarkaði á nýjan leik. Fjallað er um málið á Financial Times.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna funduðu um stöðu Grikklands í sex klukkustundir í Lúxemborg í gærkvöldi. Samið var um að fresta afborgunum Grikkja af 96 milljarða evra skuldum landsins um áratug, eða fram til 2033. Er það um 40% af heildarskuldum Grikkja við evrusvæðið. Samkomulagið felur einnig í sér hækkun á síðustu greiðslu Evrópusambandsins (ESB) til Grikklands vegna „björgunaraðgerða“ (e. bailout programmes) sem staðið hafa yfir í átta ár. 

Frá fjármálahruninu árið 2008 hafa grísk stjórnvöld þurft að grípa til sársaukafullra aðgerða til að rétta af efnahag og ríkisfjármál landsins. Gríska ríkið tók hátt í 300 milljarða evra neyðarlán, meðal annars hjá Evrópska seðlabankanum, evruríkjunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eftir fjármálakrísuna. Áætlað er að fjárhagsaðstoð við Grikkland taki enda 20. ágúst næstkomandi.

„Þetta er ótrúleg stund,“ sagði Pierre Moscovici, framkvæmdastjóri efnahagsmála hjá ESB eftir fundinn í gærkvöldi. „Gríska krísan endar hér í kvöld í Lúxemborg.“

„Grikkland er að snúa blaðinu við,“ sagði Euclid Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands. „Við höfum allar þær einingar sem þarf til að segja staðfastlega skilið við björgunaráætlunina.“