Gríska þingið hefur samþykkt 85 milljarða evra neyðarlán til landsins til næstu þriggja ára, þrátt fyrir að margir stjórnarþingmenn hafi lagst gegn því. BBC News greinir frá þessu.

Grísk stjórnvöld komust að samkomulagi við alþjóðlega lánveitendur í byrjun vikunnar. Gegn því að fá lánið þarf gríska ríkið að hækka skatta og skera niður í ríkisrekstrinum í miklum mæli.

Samkomulagið var nauðsynlegt fyrir Grikki til þess að komast hjá greiðslufalli. Það var samþykkt með 222 atkvæðum gegn 64, en 11 þingmenn sátu hjá. Af þeim 64 þingmönnum sem greiddu atkvæði gegn samkomulaginu komu fleiri en 40 frá þingmönnum ríkisstjórnarflokksins Syriza.