Seðlabanki Grikklands hefur í fyrsta skipti sagt landið hugsanlega stefna í átt að greiðslufalli og að í kjölfarið gæti Grikkland hrakist úr evrusamstarfinu og Evrópusambandinu sjálfu. Kemur þetta fram í frétt BBC.

Gríska ríkisstjórnin hefur frá því í janúar tekist á við erlenda lánadrottna, með ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fremst í flokki, um nýjan samning um hagræðingu í ríkisrekstri í Grikklandi. Vegna þess að ekkert hefur áorkast í þessum viðræðum hefur Grikkland ekki fengið afhenta 7,2 milljarða evra í neyðaraðstoð, sem ríkissjóður þarf nú nauðsynlega á að halda til að geta staðið í skilum við lánadrottna.

Ofan á þetta bætist að á tímabilinu frá október til apríl runnu 30 milljarðar evra út úr gríska bankakerfinu, að því er segir í yfirlýsingu gríska seðlabankans.

„Náist ekki samkomulag myndi það marka upphafið að sársaukafullu ferli, sem til að byrja með myndi leiða til greiðslufalls og á enda með útgöngu landsins úr evrusvæðinu og mjög líklega út úr Evrópusambandinu,“ segir í yfirlýsingu seðlabankans.