Grískir bankar opnuðu í morgun eftir að hafa verið lokaðir í þrjár vikur vegna lausafjárskorts og slæmrar skuldastöðu ríkissjóðs landsins. Þrátt fyrir að bankarnir hafi opnað á ný er starfsemi þeirra en hins vegar verulega skert.

Þegar bankarnir lokuðu fyrir þremur vikum síðan settu grísk stjórnvöld hámark á úttektarfjárhæðir grískra ríkisborgara úr hraðbönkum landsins. Var þannig aðeins hægt að taka út 60 evrur á dag, en þessu skilyrði hefur nú verið breytt í þá veru að hægt er að taka út 420 evrur á viku, að því er segir í frétt BBC .

Fleiri takmarkanir eru hins vegar til staðar og hafa til dæmis verið sett ströng skilyrði fyrir millifærslu fjár til útlanda. Einnig hafa verið settar hömlur á opnun nýrra bankareikninga í landinu.