Verðlækkanir hafa verið á hlutabréfamörkuðum í Evrópu í dag í skugga lélegs gengis í samningaviðræðum evruríkjanna og Grikkja vegna skuldavanda landsins. Gengi evrunnar hefur lækkað það sem af er degi.

19. júní á gríska ríkið að greiða 1,6 milljarða evra afborgun af ríkisskuldabréfum. 1,54 milljarða afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er síðan á gjalddaga þann 30. júní. Útlit er fyrir að gríska ríkið nái ekki að greiða þessar afborganir náist ekki samkomulag við lánadrottna, ríki og stofnanir Evrópusambandsins. Samningaviðræður um helgina þóttu ekki bera góðan árangur. Hluti Syriza-flokksins í Grikklandi er sagður vilja þjóðnýta bankakerfi landsins og knýja það í þrot.

Evrópsk hlutabréf hafa lækkað í verði í dag. FTSEurofirst 300 vísitalan hefur til að mynda lækkað um 1,5%. Hlutabréfaverð grískra banka hefur lækkað stíft, til að mynda hefur Piraeus Bank lækkað um 11,4% og Eurobank Ergasias um 5,3% það sem af er degi. Bankar í Ítalíu og á Spáni hafa einnig lækkað í verði. Þá hefur evran veikst um 0,2% í dag.