Gríska ríkisstjórnin hefur staðfest að bankar í landinu verði lokaðir út þessa viku eftir ákvörðun Seðlabanka Evrópu um að hætta að veita grískum bönkum lausafjáraðstoð. BBC News greinir frá þessu.

Ríkisstjórnin segir þessar ráðstafanir nauðsynlegar vegna skorts á lausafé. Þá mun fólki nú aðeins vera heimilt að taka út 60 evrur að hámarki dag hvern.

Hlutabréfavísitölur hafa lækkað nokkuð frá opnun markaða í morgun vegna ástandsins í Grikklandi. Þannig lækkaði FTSE vísitalan í Lundúnum um tæp 2% skömmu eftir opnun markaða, en í Japan lækkaði Nikkei vísitalan í Japan um næstum 3% þegar mest lét.

Dax vísitalan í Frankfurt hefur lækkað um 3,19% það sem af er degi, en Cac vísitalan í París hefur lækkað um 3,41%. Þá hefur evran misst 2% af virði sínu gagnvart Bandaríkjadal það sem af er degi.