Grískir bankar munu þurfa allt að 14 milljarða evra af nýju fjármagni til að halda sér á floti. Þeir þurfa einnig á meiri tíma að halda áður en þeir geta opnað á ný, jafnvel þó samkomulag náist við evrópska lánadrottna um helgina. Þetta segir háttsettur grískur bankamaður við Reuters.

Grískir bankar hafa verið lokaðir í tvær vikur og hafa treyst á neyðarlánalínu frá Seðlabanka Grikklands til að útdeila skömmtuðu magni af seðlum. Þeir eiga að opna aftur á þriðjudag en það gæti tekið örlítið lengri tíma.

Þó svo að bönkunum hafi blætt meira en 34 milljörðum evra í formi úttekta frá því í desember eru bankar bjartsýnir á að geta opnað undir lok næstu viku. Bankastarfsmaðurinn sem Reuters ræddi við sagði að hámarksúttektir upp á 60 evrur á dag ættu að geta haldið áfram þar til á mánudagskvöld. Eftir það gætu hins vegar orðið vandræði.

National Bank, Piraeus, Eurobank og Alpha, sem telja um 95% gríska bankageirans, munu líklega þurfa á endurfjármögnun að halda og starfsemi þeirra verður ekki með eðlilegu móti næstu mánuði.

,,Það er þörf á 10 til 14 milljörðum evra í formi nýs fjármagns," sagði áðurnefndur bankamaður.

Reynt verður að fá fjármagnið frá einkafjárfestum en ef það gengur ekki upp þarf að leita annað.