„Þetta er fyrsta klaustrið sem kaupir bát af okkur. Við höfum ekki markaðssett okkur sérstaklega í klaustrum enda eru þau ekki mörg í útgerð. En þetta klaustur er við sjó og með meira en 100 ára hefð fyrir því að róa til fiskjar,“ segir Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri Trefja í Hafnarfirði. Grískir munkar í Vatopedi-klaustrinu á Athos-skaga á Grikklandi pöntuðu í fyrrahaust 11 brúttótonna bát hjá Trefjum af gerðinni Cleopatra 33.

Fram kom í vefútgáfu Fiskifrétta í dag að báturinn er útbúinn tveimur aðalvélum, með 12W rafstöð, með ískrapavél, siglingatæki og útbúinn til neta-, gildru- og línuveiða. Þá er í bátnum rými fyrir tólf 380 lítra kör í einangraðri lest. Vistarverur eru loftkædlar og svefnpláss fyrir þrjá auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbygljuöfni og ísskáp. Gert er ráð fyrir 2 til 3 manna áhöfn.

Högni segir í samtali við vb.is bát búinn þessum tækjabúnaði kosta á milli 40 til 60 milljóna króna. Mynd af bátnum má sjá hér að neðan.

Munkarnir í Vatopedi-klaustrinu eru sjálfbærir og kaupa ekkert matarkyns til neyslu. Þeir neyta því sjálfir alls þess afla sem þeir landa. Í klaustrinu eru á milli 150 til 200 munkar. Þeir eru grænmetisætur en neyta bæði fisks og mjólkurvara. Munkarnir standa sömuleiðis í heilmikilli ræktun á grænmeti og ávöxtum.

Munkarnir frá Vatopedi-klaustrinu hafa komið hingað til lands í tvígang vegna kaupanna á bátnum. Högni segir munkana hafa mikla þekkingu á smábátum og útgerð og greinilega mikla trú á bátnum frá Trefjum, sem sé tiltölulega flókinn og vel búinn tækjum.

„Þeir eru mjög skynsamir og vita upp á hár hvað þeir gera í veiðum. Þeir voru ekki blautir á bak við eyrun þegar þeir leituðu til okkar,“ segir Högni. Báturinn er á leið til munkanna á Grikklandi og er gert ráð fyrir að þeir geti gert út á honum um mánaðamótin.

Engar konur, takk

Mikill fjöldi klaustra hefur í aldanna rás verið á Athos-skaganum á Grikklandi. Þau eru um 20 um þessar mundir. Athos-skaginn byggður upp af fjöllum, vegir eru engir og sjóleiðin sú eina færa. Talið er að fyrsta klaustrið hafi risið þar á 8. eða 9. öld.

Þeir sem hyggjast heimsækja munkaklaustrin á Athos-skaganum þurfa að lúta ströngum reglum. Á meðal þeirra er sú að einstaklingum með ákveðna hárlengd er meinaður aðgangur nema þeir skerði það. Þá var konum lengi vel meinaður aðgangur á skagann enda hætt við að vera þeirra geti truflað meinlætalifnað munkana. Undanþágur hafa þó verið veittar frá þessari ströngu reglu upp á síðkastið.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Trefjabáturinn sem grísku munkarnir keyptu hefur fengið nafnið Vimatarissa.