Fyrirtækið Ilulaq-water í bænum Ilulissat á Grænlandi hyggur á allsérstakan vatnsútflutning til Japans, Mið-Austurlanda og Bandaríkjanna. Hugmyndin er að bræða grænlenskan jökulís og tappa vatninu á sérhannaðar flöskur til útflutnings undir nafni Iluliaq Original Iceberg Water. Er það jafnframt í fyrsta sinn sem tilraun er gerð til að flytja út vatn frá Grænlandi.

Framleiðsla er þegar að komast í gang og er ráðgert að flytja út fyrstu flöskurnar í vor að því er segir á vefsíðu sermitsiaq. Vatninu verður tappað á 75 sentílítra flöskur, eða sömu stærð og hefðbundnar þriggja pela vodkaflöskur. Gerir Jiulien Garquineau, forstjóri fyrirtækisins ráð fyrir að selja hverja flösku á 75 dollara sem svarar um 9.600 íslenskum krónum. Þá er flutningurinn frá Ilulissat innifalinn ásamt mynd af þeim stað sem jökulísinn er tekinn. Einnig munu fylgja upplýsingar um hreinleika vatnsins.