Það er víðar en á Íslandi sem heimamenn flýja land og hefur Palle Christiansen fjármálaráðherra Grænlendinga miklar áhyggjur af landflóttanum þar í landi. Segir hann að ef það sé eitthvað eitt sem ógni framtíð Grænlands þá sé það landflótti.

„Önnur vandamál ógna landinu til skamms tíma, en til lengri tíma litið mun mikil tíðni á flutningi fólks úr landi á undanförnum árum grafa undan vonum Grænlendinga um sjálfstæði.”

Á vefsíðunni sermitsiaq eru birtar nýjustu tölur um landflóttann sem sýna að af um 50.000 íbúum Grænlands fluttu 638 manns úr landi á árinu 2008. Sú tala nálgast metið í brottflutningi fólks sem átti sér stað 2006 þegar 644 fluttu af landi brott. Vonast Christiansen einkum til að geta aukin sjálfsstjórn fái eitthvað af því unga fólki sem leitar sér menntunar í Danmörku til að snúa til baka. Atvinnumöguleikar heimafyrir séu aftur á móti mikið áhyggjumál þeirra sem vilji flytja til baka. Þá sé skortur á íbúðarhúsnæði einnig vandamál, en ríkisstjórnin hafi þegar heimilað fjármögnun nýrra byggingaframkvæmda. Christiansen skorar á samlanda sína í Danmörku með þessum orðum:

„Ef þú ert staðsettur niður í Danmörku, þá getur þú ekki tekið þátt í að byggja upp landið þitt. Við þetta fólk segi ég: Ég heyri hvað þið eruð að tala um, en þið verðið að koma heim til að hjálpa okkur.”