Viðskiptablaðið sló á þráðinn til Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, og spurði hann um aukinn umsvif félagsins í Grænlandsflugi. "Við stefnum að því að gera Ísland að tengipunkti við Grænland allt árið um kring, óháð því hvort ferðamenn séu að koma gagngert til Íslands,“ segir Árni og bendir á að laugardaginn 31. júlí hafi verið farnar sex áætlunarferðir til Grænlands.

Flugfélagið mun halda áfram að fljúga á þrjá af fimm áfangastöðum sínum á Grænlandi næsta vetur eftir að ákvörðun var tekin um að hefja heilsársflug til Nuuk. Auk þess er flogið allt árið til Kulusuk og Constable Point við Scoresbysund.

Þar með eru áfangastaðirnir fyrir heilsársflugið orðnir jafnmargir á Grænlandi og á Íslandi eftir að Eyjaflugið lagðist af um síðustu mánaðamót. Árni bendir þó á að tíðni innanlandsflugsins sé enn meiri.

Lífleg verslunarmannahelgi

Eins og ætla mætti var í mörg horn að líta hjá fyrirtækinu um verslunarmannahelgina, ekki síst á frídeginum sjálfum. Árni segir að flugfélagið hafi flutt um 2.700 farþega þann dag í 32 áætlunarferðum, þar af um 1.500 manns frá Vestmannaeyjum.