Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,38% þegar þetta er skrifað og er 5.742 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Flestar vísitölur sem er að finna á viðskiptavefnum Euroland eru grænar.

Hlutabréfavísitölur um heim allan hafa flestar lækkað alla daga frá áramótum. Við lok markaðar í gær hafði Úrvalsvísitalan lækkað um 9,5% á nýju ári.

Sérfræðingur hjá Kaupþingi sem DowJones fréttaveitan talaði við um Norrænu markaðina segir að eftir miklar lækkunir á fyrstu dögum ársins, hafi verið komið að því að markaðurinn kæmi eitthvað til baka.

Velta á hlutabréfamarkaði  nemur um milljarði króna en velta á skuldabréfamarkaði nemur 16 milljörðum króna.

Kaupþing [ KAUP ] hefur hækkað um 1%, Marel [ MARL ] sömuleiðis, Glitnir [ GLB ] hefur hækkað um 0,74%, Spron [ SPRON ] hefur hækkað um 0,6% og Össur [ OSSR ] hefur hækkað um 0,52%.

Föroya banki [ FO-BANK ] hefur lækkað um 1,9% og Exista [ EXISTA ] hefur lækkað um 0,6%.

Gengi krónu hefur styrkst um 0,25% og er 120 stig.