*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 19. maí 2018 13:02

Gróði ekki markmiðið í sjálfu sér

Þórður Magnússon, einn aðaleigenda og stjórnarformaður Eyris Invest, segir félagið alla tíð hafa fjárfest í fyrirtækjum sem skapi verðmæti og geri heiminn betri.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Í kringum 2004 og 2005 töldum við að það væri að verða dálítið mikil verðbólga í því sem væri verið að gera hérna,“ segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, og á þar við þær miklu verðhækkanir sem urðu á svo til öllu á árunum fyrir hrun. Ferill Þórðar spannar nokkuð mörg ár. Hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands 1974 og fór þá til Bandaríkjanna. Þórður var viðmælandi Viðskiptablaðsins í vikunni.

„Þá hafði ég reyndar gert ýmislegt. Ég var í afleysingum hjá símanum á sumrin. Þegar birgðastjórinn veiktist var ég allt í einu orðinn birgðastjóri og færði birgðabókhaldið á kvöldin.“ Að námi loknu hóf Þórður störf sem markaðsstjóri ullar- og skinnaverkefnis, var síðan framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar áður en hann hóf störf sem fjármálastjóri Eimskips þar sem hann starfaði í 20 ár og sat í stjórnum fjölmargra fyrirtækja fyrir hönd Eimskips á þeim tíma. Á ferli sínum hefur Þórður gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum í atvinnulífinu, meðal annars með setu í stjórn Vinnuveitendasambandsins, nú Samtök atvinnulífsins, og Viðskiptaráðs.

Þórður hefur stýrt Eyri Invest sem stjórnarformaður frá stofnun félagsins árið 2000. Eyrir Invest hefur ætíð haft það að markmiði að fjárfesta í einhverju sem skapar raunveruleg verðmæti. „Við förum inn í verkefni vegna þess að við trúum á einhvern hátt á að það falli að því sem er að gerast í heiminum og geri heiminn betri á einhvern hátt. Það að græða má ekki vera markmið í sjálfu sér, það er afleiðing af einhverju sem þú gerir vel,“ segir Þórður. Eyrir Invest hefur að því er virðist alla tíð aðhyllst þessa heimspeki – sumum til mikillar undrunar.

Skildu ekki hvað Eyrir var að hugsa

„Á árunum 2004 og 2005 gerðumst við kjölfestufjárfestar bæði í Marel og Össuri,“ segir Þórður og stekkur síðan dálítið bros. „Þá voru menn í umhverfinu og allt fram að hruni að velta fyrir sér hvað við værum að hugsa því það væri miklu meiri arðsemi í bönkunum. Það sem skiptir meginmáli í þessu er að í þessum félögum er verið að byggja upp verðmæti. Svo skiptir auðvitað máli að menn séu í umhverfi og starfsgreinum sem við trúum að hafi mikla möguleika og framtíð fyrir sér. Við höfum verið mjög virkir fjárfestar í þessum félögum sem við höfum komið að, bæði þessum stærri og sprotafyrirtækjunum.“

Þetta segir Þórður að sé lykilatriði í því að ná árangri. „Þetta byggir á að vera í nánum tengslum við stjórnendur fyrirtækjanna og byggja sterkt stjórnendateymi. Það skiptir miklu máli að fyrirtæki miðli þekkingu hvert til annars og sæki hana til þeirra sem hafa hana. Framan af var framleiðsluhefðin og þekkingin á Íslandi mjög takmörkuð og lítil stýring og þekking á virðiskeðjunni. Þetta var orðið allt öðruvísi og miklu þróaðra í þeim fyrirtækjum og á þeim mörkuðum sem hafa á annað hundrað ára sögu í framleiðslu og framleiðslustjórnun. Þessar breytingar verða ekki hér á Íslandi fyrr en á allra síðustu árum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.