Enn er stefnt að byggingu 150 þúsund fermetra gróðurhúss í Mölvík, sem er um tíu kílómetra fyrir utan Grindavík. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður um 35 til 40 milljónir evra eða 5,4 til 6,2 milljarðar króna, en á bak við framkvæmdirnar er hollenska fyrirtækið EsBro.

Viðskiptablaðið sagði frá því síðasta vetur að komin væru drög að samningi við HS Orku um kaup á 32 megavöttum af orku.

Samkvæmt upplýsingum frá bæjarskrifstofu Grindavíkurbæjar er staðan óbreytt. Enn er stefnt að byggingu gróðurhússins en málið mun vera í biðstöðu. Engir samningar hafa verið undirritaðir og útséð með að framkvæmdir hefjist á þessu ári. Ef af framkvæmdunum verður mun gróðurhúsið skapa ríflega 100 störf. Rækta á tómata fyrir Evrópumarkað í gróðurhúsinu.

Fjallað er um málið í Reykjanesblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .