*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 21. janúar 2016 09:42

Gróft inngrip aðalforstjóra Rio Tinto

Forseti ASÍ segir að ef Straumsvík muni frysta laun út árið muni það hafa gríðarleg áhrif — samúðaraðgerðir séu hugsanlegar.

Trausti Hafliðason
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Haraldur Guðjónsson

Kjaradeilan í álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík (ÍSAL) var rædd á miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í gær. Í síðustu viku tilkynnti Sam Walsh, aðal­for­stjóri Rio Tinto,  að laun starfsmanna fyrirtækisins yrðu fryst á þessu ári.  Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að málið sé fordæmalaust.

„Það er algjör nýlunda á íslenskum vinnumarkað að ofan í erfiða kjaradeilu, eins og núna er í gangi hjá ÍSAL, komi einhliða yfirlýsing forstjóra Rio Tinto í heiminum þess efnis að hann banni allar launahækkanir í fyrirtækinu. Þetta er mjög gróft inngrip í kjaraviðræðurnar og íslenskan vinnumarkað. Þetta stangast á við íslensku vinnulöggjöfina og gengur ekki upp.

Forræði launamyndunar hér á landi er ekki á forræði aðalforstjóra Rio Tinto. Við mótmælum þessu því kröftuglega. Samningsumboðið er hjá Samtökum atvinnulífsins. Það getur vel verið að þau séu í glímu við fyrirtækið um það hvernig það vilji haga sér en þau eru samt ábyrg gagnvart okkur. Okkar aðildarfélög verða að geta treyst því að viðræður um kaup og kjör séu á grundvelli íslensku vinnulöggjafarinnar."

Samúðaraðgerðir?

„Ég hefði vænt þess að Samtök atvinnulífsins hefðu gefið út yfirlýsingu vegna þessa mála. Að þetta kunni að vera skoðun þessa manns en varði ekki íslenskan vinnumarkað en það hafa Samtök atvinnulífsins ekki gert. Ef fyrirtækið ætlar að framkvæma þetta þá mun það hafa gríðarleg áhrif," segir Gylfi og vísar til  þess að vel sé hugsanlegt að aðildarfélög ASÍ fari í samúðaraðgerðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.