Netfyrirtækið Groupon verður skráð þann 4. nóvember og ætlar að safna 621 milljón bandaríkjadala í hlutafé. Er félagið því metið á 11,4 milljarða bandaríkjadala. Upphaflega ætlaði Groupon að safna 750 milljónum til eins milljarðs bandaríkjadala og félagið þ.a.l. verðmetið á 15 milljarða bandaríkjadala. Í útboðinu verða aðeins 5% af hlutafé Groupoun selt sem er gert til að auka verðmyndun með bréf í félaginu.

Groupon var stofnað fyrir þremur árum og hefur yfir 115 milljón áskrifendur að daglegum tilboðum vefsíðunnar. Starfsmenn Groupon eru í dag um 9.600 á 220 markaðssvæðum. Tekjur Groupon á fyrstu sex mánuðum ársins voru 688 milljónir bandaríkjadala en markaðskostnaður á sama tíma nam 432 milljónum bandaríkjadala.