Uber og heimsendingarþjónustan Grubhub hafa átt viðræður um mögulega sameiningu en enn á eftir að semja um verð. Grubhub hafnaði síðasta tilboði Uber sem hljóðaði upp á 1,9 hlut í Uber fyrir hvern hlut í Grubhub. Ólíklegt þykir að félögin nái samkomulagi á næstu dögum samkvæmt heimildum WSJ .

Grubhub er bandarískur netmarkaður fyrir veitingastaði og sér um heimsendingar þeirra. Fyrirtækið, sem stofnað var árið 2004 og hefur höfuðstöðvar í Chicago, er metið á rúma 5 milljarða Bandaríkjadollara eða um 730 milljarða íslenskra króna. Tilboð Uber metur Grubhub hins vegar á 5,7 milljarða dollara miðað við gengi Uber í lok markaða í gær.

Fyrirhuguð sameining myndi sjá félagið sameinast Uber Eats sem er sambærileg þjónusta sem Uber býður upp á. Fyrirtækin hafa spáð kostnaðarlækkun upp á 300 milljónir dollara ef af sameiningunni verður. Heimsendingargeirinn hefur verið í miklum uppgangi síðan heimsfaraldurinn skall á þrátt fyrir nýjar áskoranir.

Þýska fyrirtækið Delivery Hero SE og hollenska heimsendingarþjónustan Takeaway.com, sem tók yfir Just Eat í febrúar, hafa einnig íhugað að bjóða í Grubhub en Uber er þó talið vera líklegasti aðilinn til að taka yfir félagið í dag.