Hvorugum forstjóra Exista var kunnugt um áform Nýja Kaupþings að gera veðkall í bréfum Exista eftir bankahrunið og ná yfirráðum í félaginu, segir Erlendur Hjaltason, fyrrum forstjóri Exista.

Erlendur bar vitni í dag á öðrum degi aðalmeðferðar í máli embættis sérstaks sóknara gegn þeim Lýð Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Exista, og lögmanninum Bjarnfreði Ólafssyni. Þeir eru báðir ákærðir fyrir að hafa skýrt rangt og villandi frá hlutafjárhækkun Exista. Við hækkunina keypti félagið BBR 50 milljarða hluta í Exista fyrir einn milljarð króna.

Erlendur var forstjóri Exista ásamt Sigurði Valtýssyni. Þeir fóru báðir frá þegar kröfuhafar tóku Exista yfir haustið 2010.