Tvær ástæður eru fyrir því að grunaðir breyta framburði sínum við rannsókn máls, að sögn Dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar. Í fyrsta lagi ef fram koma ótvíræð sönnunargögn eins og lífsýni. Annars vegar ef hinn grunaði verður fyrir þvingunum, hótunum sem gera það að verkum að hinn grunaði trúir því að áframhald verði á einangrun og yfirheyrslum.

Kom þetta fram í máli hans á fundi, sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík í gær á vegum sálfræðisviðs og lagadeildar HR. Jón Friðrik var fulltrúi í starfshóp innanríkisráðuneytis og vann að sálfræðimati skýrslu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið ásamt Gísla H. Guðjónssyni en báðir eru þeir prófessorar í réttarsálfræði við sálfræðisvið HR.

Í sálfræðimati skýrslunnar telja réttarsálfræðingarnir til margar ástæður fyrir þeirri niðurstöðu að játningar sakborninga séu óáreiðanlegar. Áberandi er í rannsóknargögnum að sakborningar nutu ekki vafans þar sem rannsakendur, þar með talinn Karl Schülz, virtust hafa verið búnir að ákveða sekt þeirra. Þannig var misræmi í frásögnum taldar vera tilraunir sakborninga til að flækja málin. Að mati starfshópsins er það augljóst að við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins var gengið var út frá því að þau voru sek, sem svo hafði áhrif á vinnubrögð lögreglu, rannsóknargögn og þar af leiðandi dóma sem felldir voru í kjölfarið.

Jón Friðrik sagði aðrar ástæður fyrir óáreiðnaleika játninga vera lengd einangrunarvistar, tíðar og langar yfirheyrslur, einstaklingsbundnir áhættuþættir, fjöldi vettvangsferða þar sem í raun enginn veit hverju fram fór, takmörkuð aðstoð lögmanna og tíð, óformleg samskipti rannsakenda við sakborninga sem eykur hættu á svokölluðum spilliáhrifum.