Samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins rannsaka hvort bankar hafi stundað misnotkun á markaði millibankavaxta í London (LIBOR), samkvæmt heimildum Bloomberg fréttaveitu. Samkeppnisyfirvöld hófu rannsókn á 16 af stærstu bönkum heims í síðustu viku vegna gruns um misnotkun á markaði skuldatrygginga.

Yfirvöld óskuðu eftir upplýsingum frá bönkunum í síðasta mánuði og spurðu hvernig vextirnir eru reiknaðir. Breski bankinn Barclays hefur þegar tilkynnt að hann muni vinna að rannsókninni með yfirvöldum.

Í frétt Bloomberg kemur fram að erfitt verði að sanna mögulega misnotkun. Sérfræðingur segir þó að það sé jákvætt að eftirlitsaðilar rannsaki nú í auknum mæli hegðun á fjármálamarkaði.

Ef fjármálastofnanir verða fundnar sekar um misnotkun á fjármálamarkaði getur sekt verið allt að 10% af heildartekjum. Sekt sem hljóðar upp á margar milljónir evra er því ekki útilokuð.