Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra grunar félög í eigu nokkurra fyrrum starfsmanna Straums Fjárfestingabanka um stórfelld brot gegn gildandi gjaldeyrishöftum.

Félögin tvö heita Glacier Capital Partners, skráð á Íslandi, og Aserta, skráð erlendis, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Efnahagsbrotadeild mun kynna rannsókn sína á þessum brotum á gjaldeyrishöftum á blaðamannafundi klukkan 15:00 í dag.

Keyptu krónur á aflandsgengi og græddu milljarða

Málið snýr að eignarhaldsfélögum í eigu nokkurra fyrrum starfsmanna Straums Fjárfestingabanka, Glacier Capital Partners og Aserta, og varðar upphæð sem nemur um sjö prósent af allri gengisveltu í landinu. Mennirnir eru grunaðir um að hafa víxlað andvirði 13 milljarða króna úr erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur á aflandsgengi framhjá gjaldeyrishöftunum sem sett voru í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Þeir fluttu nýverið lögheimili sitt til Lundúna. Heildarveltan í viðskiptunum er talin vera um 48 milljarðar króna.

Aflandsgengi krónu er mun hærra en gengi Seðlabanka Íslands. Sem dæmi má nefnda að hjá Seðlabankanum fást 178 krónur fyrir hverja evru á meðan að hægt er að fá um 267 krónur fyrir hverja evru víða erlendis.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að hagnaður af hverjum viðskiptum sem fara fram með þessum hætti sé á bilinu 15 til 40 prósent af þeirri upphæð sem gjaldeyrissalan skilar. Því er um milljarða króna hagnað að ræða.

Viðurlög allt að tveggja ára fangelsi og upptaka eigna

Gjaldeyrishöftin voru sett til að reyna að verja íslensku krónuna frá frekari falli. Viðurlög vegna brota gegn gjaldeyrishöftunum eru allt að tveggja ára fangelsi. Hægt er að kyrrsetja eignir þeirra sem eru grunaðir um brot af þessu tagi og gera þær upptækar ef hinir grunuðu verða sakfelldir. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að bæði handtökur og húsleitir hafi þegar verið framkvæmdar í tengslum við rannsóknina.

Rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar er unnin í samvinnu við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið.