Einn þeirra einstaklinga, sem hafa stöðu grunaðs manns í rannsóknum embættis sérstaks saksóknara á mögulegum sakamálum tengdum bankahruninu, hefur verið úrskurðaður í farbann.

Embættið staðfesti þetta en vill ekki upplýsa um hver viðkomandi einstaklingur er né hvaða rannsókn hann tengist. Úrskurðurinn féll fyrr í desembermánuði í héraðsdómi Reykjavíkur.

Þetta er í fyrsta sinn sem embætti sérstaks saksóknara hefur beitt farbannsúrræði. Úrskurðinn var ekki birtur á heimasíðu íslenskra dómstóla líkt og venja er.

Hjá Héraðsdómi Reykjavíkur fengust þær upplýsingar að málið væri svokallað rannsóknarmál og því fáist engar upplýsingar um það.