Helga Ingvarsdóttir, sem er grunuð um að hafa svikið um 2,2 milljarða króna út úr auðkýfingnum Roger Davidson, starfaði í viðskiptaþjónustu íslenska utanríkisráðuneytisins í New York um nokkurra mánaða skeið á árinu 1999.

Helga var handtekin í byrjun vikunnar ásamt ástmanni sínum, Vickram Bedi, vegna gruns um að þau hefðu svikið mikla fjármuni af Davidson á sex ára tímabili með lygilegri svikamyllu. Davidson, sem er þekkt tónskáld og einn erfingja olíurisans Schlumberger Ltd., hafði leitað til fyrirtækis parsins vegna tölvuvíruss.

Helga og Bedi eiga í kjölfarið að hafa sannfært Davidson um ótrúlega lygaþvælu sem snérist meðal annars um að Opus Dei trúarreglan hafi viljað ræna völdum í Bandaríkjunum. Parið gæti átt yfir höfði sér 25 ára fangelsi verði þau fundin sek. Þau neita bæði sök.