Farið er að þrengja mjög að iðnfyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, einkum hvað stórar lóðir varðar. Til að mæta þessari þörf hafa Faxaflóahafnir farið í mikla skipulagsvinnu við framtíðariðnaðarsvæði á Grundartanga.

Í nýjasta hefti Hafnarblaðsins kemur fram að svæðið sem Faxaflóahafnir hafa yfir að ráða á Grundartanga er alls um 650 hektarar. Þar af eru um 200 hektarar undir núverandi starfsemi.

Hafa Faxaflóahafnir keypt jarðirnar Klafastaði og Katanes. Hefur sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar þegar samþykkt fyrsta áfangann í nýju deiliskipulagi fyrir Klafastaðalandið, sem er vestanmegin við núverandi stóriðju.

Í lok árs má reikna með að heildar-deiliskipulag fyrir Klafastaðasvæðið verði tilbúið en í því skipulagi er gert ráð fyrir allmörgum lóðum fyrir stór og smá iðnaðarfyrirtæki.