*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 27. mars 2018 09:01

Grunnlaun forstjóra OR hækka um 6,9%

Bjarni Bjarnason er með tæpar 3 milljónir á mánuði sem eru tvöföld laun hans árið 2011, og milljón meira en borgarstjóri er með.

Ritstjórn
Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Bjarnason forstjóri OR fær 6,9% hækkun grunnlauna samkvæmt nýlegri samþykkt stjórnar félagsins. Hækka laun Bjarna því um rúmar 153 þúsund krónur á mánuði sem kemur til viðbótar við 8,6% hækkun fyrir ári síðan að því er Fréttablaðið greinir frá.

Heildargrunnlaun Bjarna nema því 2.374.110 krónum á mánuði, en til viðbótar við það fær hann um 230 þúsund krónur á mánuði fyrir hvort stjórnarformennskusætið í tveimur dótturfélögum OR. Því til viðbótar koma svo um 147 þúsund króna bifreiðahlunnindi, sem Bjarni fær því hann er ekki með afnot af bíl í eigu OR.

Heildarlaun forstjóra OR nema því nú um 2.993.893 krónum á mánuði, sem er rúmlega tvöföldun frá því að Bjarni tók við stöðunni árið 2011 þegar launin námu 1.340 þúsundum króna. Þar með hefur Bjarni nokkuð hærri laun en heildarlaun Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, en hann er með rúmar 2 milljónir króna á mánuði.